Burst hjá United - Ragnar og félagar áfram

Juan Mata með boltann í kvöld.
Juan Mata með boltann í kvöld. AFP

Ragnar Sigurðsson og samherjar hans hjá FC Kaupmannahöfn eru komnir áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir magnaðan 3:1-sigur á Celtic á útivelli í kvöld. Ragnar lék allan leikinn með danska liðinu. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Michael Santos danska liðinu yfir á 51. mínútu, en Odsonne Édouard jafnaði á 83. mínútu úr víti, sem dæmt var á Ragnar fyrir hönd. 

Það kom ekki að sök því Pep Biel kom FC Kaupmannahöfn aftur yfir á 85. mínútu og tveimur mínútum síðar innsiglaði Dame N'Doye sigur danska liðsins og farseðilinn í 16-liða úrslit. 

Leikmenn FC Kaupmannahafnar fagna vel og innilega.
Leikmenn FC Kaupmannahafnar fagna vel og innilega. AFP

Manchester United vann auðveldan 5:0-sigur á Club Brugge á heimavelli. United fékk víti á 22. mínútu er Simon Deli varði með hendi innan teigs. Það mátti hann ekki, þar sem hann er útileikmaður. 

Bruno Fernandes skoraði úr vítinu og var eftirleikurinn auðveldur fyrir United. Odion Ighalo og Scott McTominday bættu við mörkum í fyrri hálfleik og Fred bætti við tveimur í seinni hálfleik. 

Þá er ítalska stórliðið Inter komið áfram eftir 2:1-sigur á Ludogorets á heimavelli. Cauly Oliveira kom Ludogorets óvænt yfir, en Cristiano Biraghi og Romelu Lukaku svöruðu fyrir Inter. 

Þegar fréttin er skrifuð er framlenging í gangi hjá Arsenal og Olympiacos. Verður skrifuð sérfrétt um hana. 

Úrslitin í Evrópudeildinni: 
Ajax - Getafe 2:1 (samanlagt 0:2)
Celtic - FC Kaupmannahöfn 1:3 (samanlagt 2:4)
Inter - Ludogorets 2:1 (samanlagt 4:1)
Manchester United - Club Brugge 5:0 (samanlagt 6:1)
Benfica - Shakhtar Donetsk 3:3 (samanlagt 4:5)
Sevilla - Cluj 0:0 (samanlagt 1:1 og Sevilla áfram)

Sevilla er komið áfram eftir jafntefli.
Sevilla er komið áfram eftir jafntefli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert