Á leið í myndatöku

Anthony Martial meiddist á hné á æfingu í vikunni.
Anthony Martial meiddist á hné á æfingu í vikunni. AFP

Anthony Martial, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er á leið í myndatöku í dag vegna meiðsla á hné en þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi í morgun.

Martial var ekki leikfær í gær þegar United vann 5:0-stórsigur gegn Club Brugge í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Old Trafford í Manchester. Fyrri leik liðanna lauk með 1:1-jafntefli og United fer því áfram í sextán liða úrslit keppninnar, samanlagt 6:1.

Martial meiddist á æfingu liðsins á miðvikudaginn síðasta og gat ekki klárað æfinguna vegna eymsla. Hann reyndi að æfa í dag en óvíst er hvort hann verði tilbúinn í slaginn um helgina þegar United heimsækir Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Martial hefur þurft að glíma við sinn skerf af meiðslum á þessari leiktíð en hann hefur skorað tíu mörk í tuttugu byrjunarliðsleikjum með United í deildinni á tímabilinu. Odion Ighalo mun að öllum líkindum taka stöðu Martial í byrjunarliðinu um helgina, ef Frakkinn er ekki heill heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert