Markvörður Leeds í átta leikja bann

Kiko Casilla var úrskurðaður í átta leikja bann.
Kiko Casilla var úrskurðaður í átta leikja bann. Ljósmynd/Leeds United

Spænski markvörðurinn Kiko Casilla, sem leikur með enska B-deildarfélaginu Leeds United, var í kvöld fundinn sekur um rasisma í garð Jonathan Leko, leikmanns Charlton, í leik liðanna í september. Var hann því úrskurðaður í átta leikja bann. 

Þá var hann einnig sektaður um 60.000 pund, eða um tæpar 10 milljónir króna. Þá er honum gert að sækja námskeið í samvinnu við enska knattspyrnusambandið. Casilla neitaði sök, en að sögn knattspyrnusambandsins voru nægar sannanir gegn honum. 

Leeds er sem stendur í 2. sæti ensku B-deildarinnar og í hörðum slag um sæti í ensku úrvalsdeildinni. Í fjarveru Casilla mun hinn 19 ára gamli Frakki Illan Meslier standa á milli stanganna, en ellefu umferðir eru eftir af deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert