Bretar hlógu að veirunni

Angelo Ogbonna í leik með West Ham.
Angelo Ogbonna í leik með West Ham. AFP

Ítalski knattspyrnumaðurinn Angelo Ogbonna segir Breta hafa vanmetið kórónuveiruna og hlegið að Ítölum áður en hún geystist yfir Bretlandseyjar.  Ogbonna leikur með West Ham á Englandi. 

Ogbonna er í sóttkví í London á meðan hann og eiginkona hans eiga von á sínu öðru barni. Hann segir Breta hafa verið of lengi að bregðast við útbreiðslu veirunnar. 

„Þeir vanmátu mjög alvarlegt heimsvandamál og hlógu að Ítalíu. Þeir héldu að Ítalir væru að gera of mikið mál úr þessu. Bretar höfðu meiri áhyggjur af viðskiptum og fjármálum en veirunni,“ sagði Ogbonna við Tuttomercat. 

„Ég bý í London en ég hafði miklar áhyggjur af fjölskyldunni minni á Ítalíu,“ sagði Ogbonna, sem veit lítið um hvað tekur við í ensku úrvalsdeildinni. „Við bíðum eftir skilaboðum frá knattspyrnusambandinu. Það eru hlutir sem skipta meira máli og áhyggjurnar eru meiri eftir að Boris Johnson fékk veiruna,“ bætti varnarmaðurinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert