Gerði allt hvað ég gat til að yfirgefa Chelsea

Olivier Giroud
Olivier Giroud AFP

Franski framherjinn Olivier Giroud viðurkennir að hann hafi gert allt hvað hann gat til að yfirgefa enska knattspyrnufélagið Chelsea í janúar. 

Giroud hefur lítið fengið að spila á leiktíðinni, þar sem Tammy Abraham hefur verið fyrsti kostur í framherjastöðuna hjá Chelsea undir stjórn Frank Lampard. Giroud vildi yfirgefa Chelsea í janúar til að auka líkurnar á að vera í byrjunarliði Frakklands á EM sem átti að fara fram í sumar, en hefur nú verið frestað um eitt ár. 

„Ég sá fyrir mér að ég myndi spila annars staðar. Þetta voru erfiðir sex mánuðir og ég vildi breyta um umhverfi og njóta þess að komast aftur inn á völlinn og njóta þess að spila. Ég reyndi að fara í janúar og ég gerði allt hvað ég gat. Chelsea vildi ekki láta mig fara þar sem þeir vildu fá einhvern inn í staðinn fyrst,“ sagði Giroud við Telefoot í heimalandinu. 

„Ég var mjög vonsvikinn með að geta ekki farið, þar sem ég hafði enn þá trú á að ég gæti skipt um félag 31. janúar. Það gekk ekki eftir og ég þurfti að halda áfram. Ég fékk að spila meira eftir að ég skoraði á móti Tottenham og Lampard lofaði mér að ég fengi að spila meira. Hann stóð við það,“ sagði Giroud, áður en hann viðurkenndi að Inter Milanó hafi verið það félag sem sýndi honum mestan áhuga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert