Algjört skrímsli

Félagaskipti Robin van Persie frá Arsenal til Manchester United árið …
Félagaskipti Robin van Persie frá Arsenal til Manchester United árið 2012 voru afar umdeild. PAUL ELLIS

Knattspyrnumaðurinn Robin van Persie gekk til liðs við Manchester United frá Arsenal árið 2012. Manchester United borgaði Arsenal 22,5 milljónir punda fyrir hollenska framherjann en félagskiptin fóru afar illa í stuðningsmenn Arsenal. Van Persie var hins vegar að renna út á samning og Arsenal gat lítið annað gert en að selja fyrirliða sinn sem vildi ekki skrifa undir nýjan samning við skytturnar.

„Það voru nokkur lið sem vildu fá mig á þessum tíma, til dæmis Juventus og Manchester City, en ég ákvað að lokum að velja Manchester United,“ sagði Van Persie í samtali við hollenska fjölmiðla á dögunum. „Í sannleika sagt þá heillaði Sir Alex Ferguson mig mikið þegar að ég var á Englandi og þegar að hann sýndi mér áhuga þá vissi ég það fyrir víst að ég vildi spila fyrir hann enda magnaður stjóri.“

„United var líka með svakalegt lið á þessum tíma sem hafði unnið allt sem hægt var að vinna. Félagið tók mér með opnum örmum sem kom mér aðeins á óvart þar sem ég hafði spilað lengi með Arsenal. Ég var fyrirliði Arsenal og ábyrgðin þar var því mikil. Ég þurfti að draga vagninn, þegar illa gekk, en hjá United voru frábærir leikmenn í öllum stöðum og álagið dreifðist því jafnt á illa. Ég gat því einbeitt mér meira að mínum leik í Manchester.“

„Scholes var leikmaður sem kom mér á óvart strax á fyrsta degi. Hann var algjört skrímsli á æfingum. Hann fann alltaf leið til þess að koma boltanum frá sér, sama hversu lítið svæði hann hafði til þess að vinna með. Giggs var líka ótrúlegur þarna, þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall þá var hann ennþá sá sem hljóp mest á æfingum. Patrice Evra var líka mikill leiðtogi og þess vegna vann þetta lið svona mikið að mínu mati, það voru margir leiðtogar í liðinu, sem vildu allir axla sína ábyrgð. Það var sigurhefð þarna en samt voru leikmenn þyrstir í meira,“ bætti Van Persie við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert