Gerir það sem Pogba átti að gera

Bruno Fernandes hefur byrjað með látum síðan hann kom á …
Bruno Fernandes hefur byrjað með látum síðan hann kom á Old Trafford í janúar á þessu ári. AFP

Emmanuel Petit, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er afar ánægður með Bruno Fernandes, nýjasta leikmanna Manchester United. Fernandes kom til United frá Sporting í janúar en enska félagið borgaði tæplega 68 milljónir punda fyrir portúgalska landsliðsmanninn sem hefur komið með allt aðra vídd inn á miðsvæðið hjá United.

„Fernandes hefur haft ótrúlega jákvæð áhrif á liðið þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi í herbúðum félagsins,“ sagði Petit í samtali við enska fjölmiðla. Hann er lang bestu kaupin í janúarmánuðinum og sá sem hefur haft einna mestu áhrifin með sinni innkomu. Það er eins og hann hafði spilað með United í sex ár.“

„Hann virðist líka hafa mjög góð áhrif á liðsfélaga sína. Það er mjög erfitt fyrir leikmenn að koma inn á miðju tímabili og gera það en honum virðist hafa tekist það því það spila allir betur eftir að hann kom til félagsins. Fernandes er í raun bara að gera allt það sem Paul Pogba átti að gera þegar að hann var keyptur árið 2016.“

„Pogba átti að vera leiðtogi á vellinum og fara fyrir sínu liði. Hann hefur engan vegin staðið undir þeim væntingum, þrátt fyrir fjölda tækifæra. Svo kemur Fernandes inn og gerir þetta á tveimur mánuðum. Ég hlakka hins vegar mikið til að sjá þá saman á vellinum og þeir gætu myndað svakalegt miðjupar fyrir United,“ bætti Petit við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert