Ólíklegt að ungstirnið fari til Liverpool

Jadon Sancho er á meðal eftirsóttustu knattspyrnumanna í heiminum í …
Jadon Sancho er á meðal eftirsóttustu knattspyrnumanna í heiminum í dag. AFP

Jadon Sancho er á meðal eftirsóttustu knattspyrnumanna heims en hann er nýorðinn tvítugur. Sancho er samningsbundinn Borussia Dortmund í þýsku 1. deildinni til ársins 2022. Forráðamenn Dortmund hafa hins vegar gefið það út að leikmaðurinn verði seldur í sumar.

Verðmiðinn á honum er í kringum 130 milljónir evra en Manchester United er sagt leiða kapphlaupið um leikmanninn. Real Madrid, Barcelona, PSG og Juventus eru öll sögð áhugasöm um hann og þá hefur topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Liverpool, einnig verið nefnt sem hugsanlegur áfangastaður fyrir leikmanninn.

„Liverpool er ekki að leita sér að leikmönnum sem kosta 100 milljónir punda og þeir þurfa ekki sóknarmann sem kostar þennan pening,“ sagði ónefndur umboðsmaður í samtali við enska fjölmiðla. „Ég hef átt í viðskiptum við Jürgen Klopp, stjóra liðsins, í gegnum tíðina og ég veit upp á hár hvernig hann hugsar varðandi leikmannakaup.

Liverpool er tilbúið að borga helminginn af þessari upphæð fyrir leikmanninn sem er kannski ekki kominn jafn langt og Sancho. Þeir eru hins vegar tilbúnir að borga þessa upphæð því þeir telja að þeir geti gert hann að frábærum leikmanni einn daginn,“ bætti umboðsmaðurinn við en Liverpool hefur haft hægt um sig á leikmannamarkaðnum í undanförnum tveimur gluggum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert