Útiloka endurkomu á Anfield

Ferill Philippe Coutinho hefur legið niður á við síðan hann …
Ferill Philippe Coutinho hefur legið niður á við síðan hann fór frá Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur engan áhuga á því að fá Philippe Coutinho aftur á Anfield en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Coutinho hefur verið orðaður við endurkoma á Anfield að undanförnu en hann er sem stendur lánsmaður hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München.

Coutinho gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í janúar 2018 en spænska félagið borgaði 142 milljónir fyrir brasilíska miðjumanninn. Coutinho hefur engan vegin náð sér á strik á Spáni og spænska liðið vill nú losna við brasilíska miðjumanninn. Þrátt fyrir að hafa spilað vel í Þýskalandi á tímabilinu ætlar Bayern ekki að nýta sér forkaupsrétt sinn á leikmanninum.

Barcelona vill fá í kringum 120 milljónir evra fyrir leikmanninn sem er orðinn 27 ára gamall. Það er upphæð sem fá lið eru tilbúin að borga og því gæti Barcelona neyðst til þess að lána leikmanninn enn á ný á næstu leiktíð. Coutinho er sagður sjá mikið eftir því að hafa yfirgefið Liverpool á sínum tíma en ferill hans hefur legið niður á við síðan.

Þrátt fyrir að Bayern München sé ekki tilbúið að borga 120 milljónir evra fyrir leikmanninn eru lið í ensku úrvalsdeildinni áhugasöm um leikmanninn. Tottenham og Manchester United hafa bæði mikinn áhuga á sóknarmanninum en eru ekki tilbúin að borga uppsett verð fyrir hann. Það verður því áhugavert að sjá hvert leikmaðurinn fer í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert