Hlógu að fréttaflutningi síðustu daga

Sadio Mané og Mohamed Salah eru ekki að fara neitt …
Sadio Mané og Mohamed Salah eru ekki að fara neitt samkvæmt innanbúðarmanni hjá Liverpool. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa skemmt sér konunglega yfir fréttaflutningi enskra og franskra miðla undanfarna daga en það er James Pearce, blaðamaður hjá The Athletic, sem greinir frá þessu. Í síðustu viku var Raheem Sterling sterklega orðaður við endurkomu til félagsins frá Manchester City og þá hafa þeir Mohamed Salah og Sadio Mané báðir verið sterklega orðaður við Real Madrid og Barcelona á Spáni að undanförnu.

„Stjórnendur á Anfield hafa beinlínis hlegið að fréttaflutningi sumra miðla undanfarna daga,“ skrifaði Pearce í pistil sinn í dag. „Staðreyndin er sú að það eru meiri líkur á því að Lord Lucan, sem hvarf fyrir 56 árum síðan, komi ríðandi á hesti sínum á Anfield en að Sterling sé að koma aftur. Það eru einfaldlega engar líkur á því að hann sé að snúa aftur og það eru margar ástæður fyrir því.“

„Hann er samningsbundinn City, hann yfirgaf félagið í skyndi og þröngvaði fram sölu, hann er á meðal launahæstu leikmanna City og hann kostar 150 milljónir punda. Liverpool mun aldrei kaupa leikmann fyrir svona háa upphæð og þá myndi það setja allt úr skorðum, launalega séð hjá félaginu, ef Liverpool ætlaði sér að jafna þau 300.000 pund á viku sem Sterling er að þéna hjá Manchester City. Þá er áhuginn enginn að fá hann aftur því hann kæmist ekki í liðið.“

„Hvað varðar Mané og Salah þá hefur félagið engan áhuga á því að selja þessa tvo leikmenn og þeir eru báðir með langtímasamning við Liverpool. Eftir því sem félagið veit best hafa þeir hvorugir áhuga á því að fara og Liverpool er nú að undirbúa nýjan langtíma samning fyrir Mané en núverandi samningur hans rennur út sumarið 2023, líkt og samningur Salah,“ segir meðal annars í umfjöllun The Athletic um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert