Laug til að fá samning hjá Liverpool

Maxi Rodríguez lék með Liverpool á árunum 2010 til 2012.
Maxi Rodríguez lék með Liverpool á árunum 2010 til 2012. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Maxi Rodríguez gekk til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool frá Atlético Madrid árið 2010. Það var Rafa Benítez, fyrrverandi stjóri liðsins, sem fékk Rodríguez á Anfield en sóknarmaðurinn kom til félagsins á frjálsri sölu eftir að hafa spilað í átta ár á Spáni með Espanyol og Atlético Madrid.

Rodríguez þurfti hins vegar að ljúga að knattspyrnustjóranum Benítez til þess að tryggja sér samning hjá félaginu en leikmaðurinn greindi sjálfur frá þessu í samtali við enska fjölmiðla á dögunum. „Mér leið hrikalega vel hjá Atlético Madrid, ég var fyrirliði liðsins og ég þekkti borgina inn og út, en enska úrvalsdeildin heillaði mig alltaf,“ sagði Rodríguez.

„Rafa sagði mér að það væri afar mikilvægt fyrir sig að allir leikmenn liðsins töluðu ensku í búningsklefanum. Hann spurði mig hvort ég talaði ensku og ég sagði bara já. Ég vildi alls ekki að félagaskiptin myndu ekki ganga í gegn. Þegar að ég kom svo til Englands þá var félagið búið að skipuleggja blaðamannafund eftir undirskriftina.“

„Benítez ætlaði að byrja fundinn og svo átti ég að taka við. Það var þá sem ég greip í hann og sagði honum að ég þyrfti að játa nokkra hluti. „Ég tala ekki ensku, það eina sem ég get sagt á ensku er halló.“ Ég vildi alls ekki að félagaskiptin myndu detta upp fyrir sig þar sem að ég talaði ekki ensku og þess vegna laug ég.“

„Þú ert nú meiri tíkarsonurinn sagði Benítez þá við mig og svo hlógum við báðir eins og vitleysingar. Ég þurfti svo bara að læra ensku næstu mánuðina og það gekk bara mjög vel fyrir sig,“ bætti Rodríguez við en hann lék með liðinu frá 2010 til 2012 og skoraði sautján mörk fyrir félagið í 73 leikjum í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert