Liverpool lætur skattgreiðendur borga launin

Fyrir utan Anfield, leikvang Liverpool.
Fyrir utan Anfield, leikvang Liverpool. AFP

Knattspyrnufélagið Liverpool, eitt það ríkasta í heimi, hefur nýtt sér neyðarúrræði stjórnvalda á Bretlandi og sent hluta af starfsfólki sínu í launað leyfi en launin verða greidd, að hluta, úr ríkissjóði.

Henry Winter, ritstjóri íþróttadeildar Times, er ekki sáttur með þessa aðgerð og lætur forráðamenn Liverpool heyra það í færslu á twittersíðu sinni. „Bjóst við meiru af Liverpool. Neyðarúrræðnu vegna kórónuveirunnar er ætlað að hjálpa minni berskjölduðum fyrirtækjum að standa þetta ástand af sér, ekki gefa stórríkum knattspyrnufélögum fé skattgreiðenda,“ skrifar Winter meðal annars.

„Af hverju er félag, sem veltir milljónum punda, að nota úrræði yfirvalda til að borga starfsfólki sínu þegar önnur fyrirtæki þurfa meira á því að halda?“ hefur BBC eftir einum starfsmanni félagsins sem vildi ekki láta nafns getið.

„Félagið kallar starfsfólkið sitt fjölskyldu en mér líður ekki eins og fjölskyldumeðlim,“ sagði hann einnig og benti á að það væru vonbrigði að Liverpool hefði farið þessa leið, sér í lagi eftir að nágrannafélagið Everton sagðist ekki ætla að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert