Starfsmenn Liverpool sendir í leyfi

Anfield, heimavöllur Liverpool.
Anfield, heimavöllur Liverpool. AFP

Liverpool hefur bæst í hóp þeirra úrvalsdeildarfélaga sem hefur sent hluta af starfsfólki sínu í tímabundið leyfi vegna þess ástands sem nú ríkir í samfélaginu.

Starfsfólkið mun halda launum sínum og greiðast þau að hluta úr ríkissjóði en félagið greiðir afganginn. Félagið er þar með að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda í Bretlandi sem eiga að tryggja launafólki tekjur sínar. Liverpool hefur því slegist í hóp með Newcastle, Tottenham, Bournemouth og Norwich sem hafa einnig sent starfsfólk í leyfi.

Úrvalsdeildin hefur aflýst öllum leikjum ótímabundið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og er alls óvíst hvenær hægt verði að hefja leik á ný. Forráðamenn deildarinnar og leikmanna funda í dag um fyrirhugaða launalækkun allra leikmanna um 30%.

Mun deildin í kjölfarið styrkja breska heilbrigðiskerfið um 20 milljónir punda og neðri deildirnar um 125 milljónir. Liverpool er með 25 stiga forystu á toppi deildarinnar og þarf aðeins tvo sigra í viðbót til að tryggja fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins síðan 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert