Brytjaði niður 17 ára dreng

Paul Allen á fleygiferð í úrslitaleiknum 1980. Til hægri er …
Paul Allen á fleygiferð í úrslitaleiknum 1980. Til hægri er Liam Brady.

Hann var sloppinn einn í gegn og sá markið í hillingum; ugglaust fyrirsagnir stórblaðanna líka. Aðeins 17 ára og 256 daga gamall og þar með yngsti maðurinn í sögunni til að leika bikarúrslitaleik á Wembley. En Paul Allen, miðjumanni West Ham United, varð ekki kápan úr því klæðinu því Willy Young, varnarmaður Arsenal, renndi sér fótskriðu og brytjaði hann niður eins og hvern annan hvítlauk á bretti. Hlaut að launum gult spjald, eins og tíðkaðist á þeim tíma. Mönnum var að jafnaði ekki vikið af velli nema þá helst að lim vantaði á mótherjann eftir aðförina. 

Þetta kom ekki að sök, því þegar upp var staðið vann West Ham leikinn, 1:0, með skallamarki frá séntilmenninu Trevor Brooking og Billy Bonds fyrirliði lyfti bikarnum í leikslok. Þetta var vorið 1980 og í síðasta skipti sem lið sem ekki leikur í efstu deild hampar enska bikarnum. West Ham lék í 2. deild, sem vel að merkja var í raun og sann 2. deild á þeim tíma. Þetta var líka síðasta gull West Ham enda þótt óþarfi sé að minnast á það á svona fallegum degi.

Willy Young sópar fótunum undan Paul Allen.
Willy Young sópar fótunum undan Paul Allen.


Þetta er í eitt af fáum skiptum sem lið sem ekki er eitt af þeim sex stóru, eins og þau eru skilgreind í dag, lyftir enska bikarnum undanfarna fjóra áratugi. Frá 1980 hafa Liverpool, Manchester United, Arsenal, Chelsea, Tottenham Hotspur og Manchester City unnið bikarinn samtals 33 sinnum og átt fulltrúa í 38 úrslitaleikjum. 

Einu félögin utan klíkunnar sem komist hafa að sigurlaununum í þessari elstu knattspyrnukeppni í heimi eru, auk West Ham 1980, Everton 1984 og 1995, Coventry City 1987, Wimbledon 1988, Portsmouth 2008 og Wigan Athletic 2013. 

Eini Íslendingurinn

Á fyrsta áratugi þessarar aldar unnu stóru félögin níu bikartitla, Arsenal og Chelsea þrjá hvort, Liverpool tvo og Manchester United einn. Upp á milli komst óvæntur gestur, Portsmouth, í hinum leiknum síðustu fjörutíu árin þar sem ekkert af stóru liðunum sex kom við sögu. Andstæðingurinn var ekki síður framandi, Cardiff City frá Wales, sem þá lék í B-deildinni. Af því tilefni fékk velski þjóðsöngurinn, Hen Wlad Fy Nhadau, að óma, ásamt auðvitað God Save the Queen og sálminum Abide With Me, sem alltaf eru flutt. Bæði félög höfðu unnið bikarinn einu sinni áður, Cardiff 1927 og Portsmouth 1939.

Eitt mark var gert í leiknum og þar var að verki hinn ástsæli nígeríski miðherji, Nwankwo Kanu, af stuttu færi á 27. mínútu.

Englendingurinn Glen Johnson, okkar maður Hermann Hreiðarsson og Gana-búinn Sulley …
Englendingurinn Glen Johnson, okkar maður Hermann Hreiðarsson og Gana-búinn Sulley Muntari með bikarinn eftir frækinn sigur Portsmouth árið 2008. AFP


Lið Portsmouth var prýðilega mannað í þessum sögulega leik en þar var meðal annarra að finna markvörðinn David James, Glen Johnson, Sol Campbell, Lassana Diarra og Niko Kranjcar. Að ekki sé talað um okkar mann, Hermann Hreiðarsson, fyrsta og eina Íslendinginn til að vinna enska bikarinn. Chelsea var svo ósvífið að vinna bikarinn tímabilið áður en Eiður Smári Guðjohnsen kom og næst árið eftir að hann fór. Bömmer!

Knattspyrnustjóri Portsmouth var Harry gamli Redknapp, seinasti Bretinn til að stýra liði til sigurs í keppninni.

Nánar er fjallað um sigur litlu liðanna í enska bikarnum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert