Gleymdi maðurinn skoraði ógleymanlegt mark (myndskeið)

Federico Macheda skorar hér markið fræga gegn Aston Villa. Þetta …
Federico Macheda skorar hér markið fræga gegn Aston Villa. Þetta reyndist aðeins eitt af fjórum deildarmörkum sem hann skoraði fyrir Manchester United. AFP

Það eru orðin 11 ár síðan Federico nokkur Macheda, þá 17 ára og óþekktur knattspyrnumaður, gerði vonir Liverpool að engu í baráttunni um enska meistaratitilinn vorið 2009.

Gömlu erkifjendurnir Manchester United og Liverpool áttu í hnífjafnri baráttu um toppsætið á Englandi en skriðþunginn virtist allur vera með félaginu úr Bítlaborginni eftir frækinn 4:1-sigur á Old Trafford undir lok mars. United tapaði næsta leik á eftir og var skyndilega aðeins stigi á undan Liverpool eftir að hafa átt myndarlegt forskot nokkrum vikum áður.

Liverpool hirti svo toppsætið af nágrönnum sínum tímabundið, með því að leggja Fulham á laugardeginum, en degi síðar, sunnudaginn 4. apríl 2009, kom Aston Villa í heimsókn til Old Trafford. Cristiano Ronaldo var nokkuð sparkviss á þeim tíma með rauðu djöflunum og skoraði tvö mörk í leiknum en þeir John Carew og Gabriel Agbonlahor skoruðu fyrir gestina. Staðan var jöfn, 2:2, þegar sir Alex Ferguson, stjóri United, henti 17 ára ítölskum gutta inn á völlinn í fyrsta sinn.

Undir blálokin skoraði drengurinn svo eftirminnilegt sigurmark, seint í uppbótartíma, og tryggði United mikilvæg stig í toppbaráttunni. Markið er ekki síður eftirminnilegt fyrir það hvernig rödd sjónvarpsmannsins Martins Tylers brast þegar hann lýsti leiknum.

Ítalinn skoraði annað mark í næsta leik og spilaði fjóra leiki, það sem eftir var tímabils. Stuðningsmenn United sáu feril Macheda í hillingum en ekkert varð þó úr því. Hann spilaði aðeins 19 leiki fyrir félagið og skoraði fjögur mörk á nokkrum árum og hefur síðan komið við víða um alla Evrópu.

Í dag spilar hann með liði Panathinaikos í Grikklandi, 28 ára gamall, en honum tókst aldrei að spila nema með unglingalandsliðum Ítalíu. Markið gegn Aston Villa gleymist engu að síður seint og hafa margir rifjað það upp á samfélagsmiðlum í dag. Þeirra á meðal er Daniel Harris, blaðamaður Guardian, en markið má sjá í myndskeiðinu hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert