Hvetur framherjann til að hunsa Liverpool

Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan …
Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur. AFP

Dimitar Berbatov, fyrrverandi framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segir að Timo Werner, framherji RB Leipzig í þýsku 1. deildinni, eigi að hunsa Liverpool og ganga til liðs við Þýskalandsmeistara Bayern München. Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur en þýski framherjinn er metinn á 60 milljónir punda.

„Einhverjir fjölmiðlar hafa fjallað um áhuga Bayern München á Timo Werner og ég get staðfest það, eftir að hafa spilað í Þýskalandi, að Bayern er á sama stað og stærstu félög heims eins og Real Madrid, Manchester United, Barcelona, Manchester City og Juventus,“ sagði Berbatov í samtali við enska fjölmiðla.

„Þeir spila í Meistaradeildinni á hverju einasta ári og þeir hafa ráðið ríkjum í þýskum fótbolta undanfarna áratugi. Ef Bayern hefur áhuga á Werner þá á hann að fara þangað. Hann þekkir deildina og þeir vita hver hann er og hvað hann getur. Það myndi taka hann mun skemmri tíma að aðlagast lífinu hjá Bayern en á Englandi,“ bætti Berbatov við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert