Í vandræðum eftir partístand með fylgdarkonum

Kyle Walker braut reglur um samkomubann nokkrum klukkustundum eftir að …
Kyle Walker braut reglur um samkomubann nokkrum klukkustundum eftir að hann hvatti aðra til þess að fara að tilmælum stjórnvalda. AFP

Kyle Walker, landsliðsmaður Englands í knattspyrnu og bakvörður Englandsmeistara Manchester City, er í vandræðum eftir að hann hélt partí með fylgdarkonum í síðustu viku. Walker hefur stigið fram og beðist afsökunar á hegðun sinni en strangt samkomubann er í gildi á Englandi þessa dagana vegna kórónuveirunnar.

Hátterni Walkers hefur vakið mikla athygli á Englandi en partístandið á leikmanninum átti sér stað á miðvikudagskvöldið í síðustu viku. Fyrr um daginn hafði Walker sett inn færslu á Twitter þar sem hann hvatti fylgjendur sína til þess að fylgja tilmælum stjórnvalda í einu og öllu og halda tilsettri fjarlægð frá öðru fólki.

„Ég vil nýta þetta tækifæri og biðjast afsökunar á hegðun minni,“ sagði Walker í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. „Ég tók slæma ákvörðun í síðustu viku. Ég geri mér grein fyrir því að ég er ákveðin fyrirmynd í samfélaginu sem knattspyrnumaður og ég vil biðja fjölskyldu mína, vini, félagið mitt og stuðningsmenn afsökunar á hegðun minni.“

Forráðamenn Manchester City sendu einnig frá sér tilkynningu vegna málsins í dag. „Manchester City er með mál Kyles Walkers til skoðunar innan félagsins eftir að fréttir bárust af því að hann hefði ekki virt reglur um samkomubann breskra yfirvalda. Knattspyrnumenn eru fyrirmyndir og hann hefur skaðað félagið með hegðun sinni,“ segir í tilkynningu City.

Sky Sports greinir frá því að Walker eigi von á 250.000 punda sekt frá enska félaginu en leikmaðurinn þénar í kringum 110.000 pund á viku hjá félaginu. Hann gekk til liðs við City frá Tottenham árið 2017 og hefur orðið enskur meistari með liðinu undanfarin tvö ár. Þá á hann að baki 48 landsleiki fyrir England frá árinu 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert