Samningaviðræður sigldu í strand

Willian mun yfirgefa Chelsea þegar samningur hans rennur út.
Willian mun yfirgefa Chelsea þegar samningur hans rennur út. AFP

Willian, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, mun yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út í sumar. Þessi 31 árs gamli sóknarmaður kom til félagsins frá rússneska liðinu Anzi Makhachkala árið 2013 en Chelsea þurfti að borga 30 milljónir punda fyrir Brassann.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn Chelsea hafi verið tilbúnir að framlengja samning Willians til næstu tveggja ára. Sóknarmaðurinn vildi hins vegar fá þriggja ára samning á Stamford Bridge en Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hefur ekki verið þekktur fyrir það að framlengja til langs tíma við leikmenn sem eru komnir yfir þrítugt.

„Saga mín hjá Chelsea hefur verið einstaklega falleg en ég tel allar líkur á því að hún muni taka enda í sumar,“ sagði leikmaðurinn í samtali við brasilíska fjölmiðla. Willian hefur tvívegis orðið Englandsmeistari með liðinu, árin 2015 og 2017, og þá varð hann Evrópudeildarmeistari með Chelsea árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert