Mané byggir sjúkrahús og skóla

Sadio Mané lætur heimafólkið í Bambali njóta ávaxta af velgengni …
Sadio Mané lætur heimafólkið í Bambali njóta ávaxta af velgengni sinni í fótboltanum. AFP

Knattspyrnumaðurinn Sadio Mané hefur heldur betur tekið til hendinni við uppbyggingu í heimabæ sínum í Senegal og jafnframt aðstoðað heilbrigðisyfirvöld í landinu til að takast á við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Mané, sem hefur leikið með Liverpool frá 2016, er frá bænum Bambali í Senegal og heimafólki þar hefur fengið að njóta velgengni dáðasta sonar sveitarfélagsins. Mané fjármagnaði byggingu skóla í Bambali á síðasta ári og nú er verið að reisa sjúkrahús í bænum á hans kostnað en það á að vera tilbúið eftir hálft ár.

Þá hefur komið fram að Mané hafi lagt fram jafnvirði um sjö milljóna íslenskra króna til heilbrigðisþjónustunnar í Senegal vegna kórónuveirunnar.

Mané fæddist í heimahúsi í Bambali. „Ég man að systir mín fæddist líka heima vegna þess að það er ekkert sjúkrahús í þorpinu. Þetta var mjög erfið aðstaða fyrir alla. Ég vildi byggja sjúkrahús til að gefa fólkinu betri vonir,“ sagði Mané við The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert