Auðvelt að ganga til liðs við Man. United

Bruno Fernandes
Bruno Fernandes AFP

Bruno Fernandes var keyptur til Manchester United í janúar og fór heldur betur vel af stað með nýja félaginu en hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur fjögur í fyrstu níu leikjum sínum með félaginu.

Fernandes kom frá Sporting Lissabon í Portúgal og er strax orðinn vinsæll meðal stuðningsmanna á Old Trafford en hann segir að Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, hafi átt stóran þátt í að fá hann til Manchester.

„Það sem skipti mestu máli var trúin sem þjálfarinn hafði á mér,“ sagði Fernandes í samtali við stuðningsmenn United sem birt var á heimasíðu félagsins, þegar hann var spurður um ástæðu þess að hann færði sig um set.

„Ég þarf að vita að stjórinn styður við bakið á mér. Ef hann trúir á mig, þá gengur þetta upp. Ég þarf svo að leggja hart að mér til að halda sæti mínu og spila leiki.“

Solskjær sagði sjálfur fyrir nokkrum vikum að sterkur persónuleiki og baráttuandi hefði verið það sem heillaði hann og forráðamenn félagsins í fari Fernandes og virðast kaupin hafa borgað sig til þessa. Portúgalinn sagði að lokum að auðvelt hefði verið að ganga til liðs við félag sem hann hefur fylgst með lengi, eða síðan alþekktur landi hans gerði þar garðinn frægan.

„Að ganga til liðs við Manchester United var auðvelt, þetta hefur verið draumur frá því að ég var lítill. Ég fór að fylgjast betur með United þegar Cristiano [Ronaldo] kom, sem er eðlilegt, maður fylgdist meira með öðrum portúgölskum leikmönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert