Sanngjarnast að spila fyrir luktum dyrum

Leroy Sane.
Leroy Sane. AFP

Leroy Sané, knattspyrnumaður Englandsmeistara Manchester City, segist vera til í að klára úrvalsdeildartímabilið fyrir luktum dyrum en níu umferðir eru óspilaðar eftir að tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirunnar.

Sumir hafa kallað eftir því að tímabilið verði flautað endanlega af og þá hafa aðrir sett sig á móti þeirri hugmynd að spila leiki án áhorfenda. Sané, sem hefur verið að snúa aftur eftir erfið hnémeiðsli, telur hins vegar að þetta sé sanngjarnasti kosturinn.

„Það eru ekki allir sammála og sérfræðingarnir ræða þetta í bak og fyrir, það eina sem ég get sagt er að ég sakna fótboltans og vil fara spila eins fljótt og auðið er,“ sagði Sané í viðtali sem birtist á heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins.

„Við byrjum þegar sérfræðingarnir segja að við getum byrjað, og þá verður það líklega fyrir luktum dyrum. Það er í góðu lagi mín vegna og það væri líka sanngjarnast, að klára tímabilið,“ bætti Sané við en það er afar ólíklegt að City takist að verja titilinn.

Meistararnir eru í öðru sæti með 57 stig, 25 stigum á eftir toppliði Liverpool þegar aðeins níu umferðir eru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert