Leikmönnum verður frjálst að yfirgefa félögin

Leikmenn Wolves fagna í leik gegn Tottenham.
Leikmenn Wolves fagna í leik gegn Tottenham. AFP

Lögmaður á Englandi sem sérhæfir sig í samningsmálum knattspyrnumanna segir að þeir sem verða samningslausir í sumar geti yfirgefið félög sín þar og þá, hvort sem tímabilinu verður lokið eða ekki.

Fjölmargir leikmenn verða samningslausir 30. júní en Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur lagt til að félögin framlengi við þá leikmenn tímabundið, fari svo að klára þurfi tímabilið eftir þá dagsetningu. Þessari tillögu verður þó ekki framfylgt með lögum.

„Lagalega er ekki hægt að þvinga leikmenn til að spila áfram fyrir félögin,“ hefur Sky Sports eftir Nick De Marco sem hefur starfað innan íþróttahreyfingarinnar síðan 2002. „Það getur enginn þvingað þá til þess, hvorki FIFA, enska knattspyrnusambandið né félögin sjálf. Ef þeir vilja ganga í burtu, þá mega þeir það.

Hvort leikmenn vilja það er svo önnur spurning. Það er líklegt að flestir myndu samþykja að framlengja samninginn í stuttan tíma, á sömu kjörum, til að klára tímabilið. Það á þó ekki endilega við um alla, sérstaklega leikmenn sem eru að nálgast endalok ferilsins og eru að leita að þessum síðasta stóra samningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert