Sár og svekktur fimmtán árum síðar

Stephen Warnock í leik með Aston Villa árið 2010 en …
Stephen Warnock í leik með Aston Villa árið 2010 en hann lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. NIGEL RODDIS

Stephen Warnock, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er enn þá sár og svekktur eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2005 í Istanbúl. Í leiknum mættust Liverpool og AC Milan en í gær voru fimmtán ár frá því Liverpool-liðið vann einn sögulegasta leik sem sést hefur í keppninni eftir að hafa lent 3:0-undir í fyrri hálfleik.

Liverpool kom til baka í seinni hálfleik, skoraði þrjú mörk, og endaði svo á að vinna leikinn í vítakeppni. „Ég hafði verið inn og út úr liðinu á tímabilinu en ég spilaði lokaleikinn í deildinni gegn Aston Villa og stóð mig vel,“ sagði Warnock í samtali við BBC. „Eftir lokaæfinguna fyrir leikinn sá ég að ég var í lokahópnum og ég var þess vegna mjög ánægður.

„Tveimur tímum síðar fæ ég símtal frá Pako Ayesteran, aðstoðarmanni Rafa Benítez, sem tjáir mér að þeir hafi gert mistök í liðsvalinu. Ég átti ekki að vera í átján manna hópnum heldur Josemi. Það var hins vegar ekki Rafa sem hringdi í mig heldur Pako. Þetta var ákveðið högg að fá þetta símtal en að fá það ekki fá stjóranum var meira högg.

Mig hafði dreymt um að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Liverpool frá því ég var lítill strákur að alast upp þarna. Þessi draumur var tekinn af mér á nokkrum sekúndum og það var gríðarlega sárt. Ég átti erfitt með að fagna í leikslok því ég var sár og svekktur yfir því hvernig var staðið að hlutunum,“ sagði Warnock.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert