United kallar ekki markvörðinn til baka

Dean Henderson.
Dean Henderson. AFP

Enska knatt­spyrnu­fé­lagið Manchester United ætlar að leyfa markverðinum Dean Henderson að klára tímabilið hjá Sheffield United, jafnvel þótt lánssamningur hans við félagið renni út 30. júní.

Það er ljóst að tímabilið verður ekki klárað fyrir þann tíma vegna kórónuveirufaraldursins en ekkert hefur verið spilað síðan í mars. Henderson hefur verið á láni hjá Sheffield síðan 2018 og spilað 76 deildarleiki fyrir liðið en hann þykir einn efnilegasti enski markvörðurinn í dag, enda aðeins 23 ára gamall.

Það var alls ekki víst að Manchester-félagið myndi leyfa honum að halda kyrru fyrir í Sheffield enda eru liðin tvö að berjast innbyrðis um Evrópusæti á næstu leiktíð. Manchester United er í 5. sæti með 45 stig og Sheffield í 7. sæti með 43 stig þegar níu umferðir eru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert