Blóraböggullinn vonast til að fá annað tækifæri

Jesse Lingard.
Jesse Lingard. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard vonast til að geta átt nýtt upphaf þegar enska úrvalsdeildin hefst að nýju í næsta mánuði eftir rúmlega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Lingard hefur lítið sem ekkert spilað með Manchester United á tímabilinu og þá hefur hann ekki skorað deildarmark fyrir félagið síðan í desember 2018. Englendingurinn er 27 ára gamall og er samningsbundinn United til 2021. Félagið vill því losna við hann í sumar á meðan það færi eitthvað fyrir hann.

Hann á að baki 202 leiki fyr­ir Manchester United í öll­um keppn­um þar sem hann hef­ur skorað 31 mark og lagt upp önn­ur tutt­ugu fyr­ir liðsfé­laga sína. Lingard lék sinn fyrsta lands­leik fyr­ir Eng­land árið 2016 en hann á að baki 24 lands­leiki þar sem hann hef­ur skorað fjög­ur mörk.

„Ég er búinn að gleyma síðustu leiktíð, ég horfi fram á veginn. Jafnvel þó tímabilið sé ekki búið þá lít ég á þetta sem nýja byrjun,“ sagði Lingard í myndskeiði sem hann birti á Instagram-síðu sinni.

„Ég er með rétt hugarfar, hungrið er til staðar. Ég var ekki á réttum stað í fyrra, ég var ekki ég sjálfur. Núna ætla ég að ná markmiðum mínum,“ bætti hann við en Lingard hefur mikið verið gagnrýndur bæði af sparkspekingum sem og stuðningsmönnum United sem eru margir hverjir orðnir ansi þreyttir á honum.

Hann þurfti að þola dylgjur og hrakyrði frá stuðningsmönnum liðsins eftir afa slæma frammistöðu í bikarleik í byrjun árs og héldu þá margir að hann hefði sungið sitt síðasta. Spurningin er hvort Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, sé tilbúinn að gefa honum annað tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert