Meiri stuðningur hefði bjargað kvennadeildinni

Rakel Hönnudóttir spilaði með Reading á Englandi í upphafi tímabils.
Rakel Hönnudóttir spilaði með Reading á Englandi í upphafi tímabils. Ljósmynd/Neil Graham

Með því að aflýsa ensku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu var verið að senda slæm skilaboð til ungra kvenna í íþróttinni en það var einfaldlega ekki vilji fyrir hendi til að bjarga tímabilinu eins og hjá körlunum.

Þetta segir Helen Ward, leikmaður Watford og velska landsliðsins, en efstu tveimur deildunum á Englandi var aflýst endanlega í lok síðasta mánaðar. Aftur á móti var tekin ákvörðun um að hefja karladeildina á nýjan leik 17. júní næstkomandi. Þá hafa kvennadeildirnar víða í Evrópu hafið göngu sína á ný, til dæmis í Þýskalandi.

Samkvæmt enska knattspyrnusambandinu var nauðsynlegt að aflýsa deildinni vegna kostnaðar en Ward gefur lítið fyrir þær afsakanir. „Meira hefði verið hægt að gera til að styðja við kvennadeildina fjárhagslega. Þetta sendir slæm skilaboð til ungra kvenna í knattspyrnu, enda virðist sem allir peningarnir fara í karlaboltann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert