Sofandaháttur Liverpool að reynast dýrkeyptur

Timo Werner
Timo Werner AFP

Timo Werner, fram­herji þýska knatt­spyrnu­fé­lags­ins RB Leipzig, hefur samþykkt að ganga í raðir Chelsea í sumar en Lundúnaliðið ætlar að borga 60 milljónir evra fyrir leikmanninn. Werner hefur lengi verið eitt helsta skotmark Liverpool en sofandaháttur Jür­gen Klopp og félaga virðist hafa kostað þá einn öflugasta framherja Evrópu.

Það er Daily Mail sem segir frá því að Chelsea ætli að nýta sér ákvæði í samningi Werner sem segir að Leipzig verði að samþykja tilboð upp á 60 milljónir í hann. Þá ætlar liðið að borga honum um 200 þúsund evrur í vikulaun. Werner hef­ur raðað inn mörk­un­um í þýsku 1. deild­inni á tíma­bil­inu en hann hef­ur skorað 25 mörk í 29 leikj­um í deild­inni á tíma­bil­inu. Þá skoraði hann fjög­ur mörk í átta leikj­um í Meist­ara­deild­inni á tíma­bil­inu.

Li­verpool er sagt ekki til­búið að borga upp þessa klásúlu, meðal ann­ars vegna efna­hags­áhrifa eft­ir kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Samkvæmt fréttinni hafa forráðamenn félagsins verið að draga úr áhuga sínum á leikmanninum sem var sagður efstur á óskalista Klopp fyrir fáeinum vikum. Þjóðverjinn var m.a. sagður hafa hringt í leikmanninn til að sannfæra hann um að koma til Bítlaborgarinnar. Forráðamenn Chelsea virðast hins vegar vera að nýta sér sofandahátt Liverpool og virðist sem einn öflugasti framherji Evrópu spili í Lundúnum næsta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert