Framherji United gengur næst af velli

Odion Ighalo.
Odion Ighalo. AFP

Knattspyrnumaðurinn Odion Ighao er reiðubúinn að ganga af vellinum ef hann verður aftur fyrir kynþáttaníð í miðjum leik, en hann varð fyrir alls kyns aðkasti í Kína.

Ighao er að láni hjá Manchester United út þetta tímabil en Nígeríumaðurinn er samningsbundinn Shanghai Shenhua í Kína. Framherjinn þrítugi var í viðtali hjá Sky Sports í dag og kallaði þar m.a. eftir réttlæti í máli George Floyd, svörtum manni sem var drepinn af lögreglunni í Bandaríkjunum. Þá segist hann tilbúinn að ganga af velli, verði hann aftur fyrir barðinu á kynþáttaníð.

„Ef þetta kemur fyrir mig þá læt ég dómarann vita og ef ekkert gerist þá geng ég útaf. Þetta á ekki að koma fyrir nokkurn mann í heiminum,“ sagði Ighalo. „Í einum leik í Kína var ég kallaður alls kyns nöfnum og eftir leik kvartaði ég til knattspyrnusambandsins. Ég fór hins vegar ekki alla leið með málið, en þetta á ekki að viðgangast.

Við eigum að berjast fyrir mannkyninu, ekki húðlit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert