Drykkjarhléið breytir engu

Jürgen Klopp og Pep Guardiola fallast í faðm.
Jürgen Klopp og Pep Guardiola fallast í faðm. AFP

Síðan enska úrvalsdeildin í knattspyrnu hóf göngu sína á ný eftir hlé vegna kórónuveirunnar hafa verið höfð tvö drykkjarhlé í hverjum leik, eitt í hvorum hálfleik, til að koma til móts við leikmennina sem sneru aftur á völlinn við fordæmalausar aðstæður. Ekki eru þó allir sáttir við þetta fyrirkomulag.

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, viðurkenndi á blaðamannafundi sínum í dag að hann notaði hléið til að tala við leikmenn sína um leikskipulag og því fengi hann í raun þrjú slík tækifæri í hverjum leik en ekki bara í hálfleik eins og venjan er. Spánverjinn vill þó ekki halda þessu áfram á næstu leiktíð. „Við erum að þessu vegna þess að allir höfðu minni tíma til að undirbúa sig fyrir leikina og hitastigið er hærra á þessum árstíma. Auðvitað nota þjálfararnir tímann til að tala við leikmennina,“ sagði Guardiola en kollegi hans hjá nýkrýndum meisturum Liverpool segir þetta engu máli skipta.

„Ég hef tíu sekúndur til að tala við þá, þetta er ekki þjálfun og breytir engu,“ sagði Jürgen Klopp, stjóri Liverpool. „Allir þjálfarar fá þetta sama tækifæri, þannig að þetta er sanngjarnt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert