Fjögurra leikja bann fyrir að slást við áhorfanda

Eric Dier er skapmaður.
Eric Dier er skapmaður. AFP

Enski miðjumaður­inn Eric Dier hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann og sektaður um 40 þúsund pund af enska knattspyrnusambandinu fyrir hegðun sína eftir leik Tottenham og Norwich í enska bikarnum í mars.

Mynd­skeið sem birt­ust á sam­fé­lags­miðlum sýndu Dier hlaupa meðfram hliðarlín­unni eft­ir leik­inn, stökkva yfir aug­lýs­inga­skilti og hlaupa yfir sæti í stúk­unni þar sem hann virt­ist stefna á einn til­tek­inn áhorf­anda, án þess þó að ná til hans þar sem aðrir áhorf­end­ur komu í veg fyr­ir það. Er áhorf­and­inn sagður hafa beint niðrandi um­mæl­um til yngri bróður Dier.

Dier var í kjölfarið kærður og úrskurðaður í leikbann af aganefnd. Tottenham á aðeins fimm leiki eftir í deildinni og því ljóst að miðjumaðurinn getur aðeins spilað lokaleikinn. José Mourinho, knattspyrnustjóri liðsins, er væntanlega ekki sáttur með þessa niðurstöðu en hann kom leikmanni sínum til varnar og sagðist eiga von á sýknu í málinu í samtali við Sky Sports fyrr í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert