Þrjú lið geta barist við Liverpool

Liverpool var með mikla yfirburði í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Liverpool var með mikla yfirburði í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Peter Crouch, fyrrverandi leikmaður Liverpool og Tottenham meðal annars í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, telur að þrjú lið geti barist við Liverpool um Englandsmeistaratitilinn á næstu leiktíð. Crouch starfar í dag sem sparkspekingur á Englandi en hann lagði skóna á hilluna á síðasta ári.

„Það verða þrjú lið sem geta barist við Liverpool um bikarinn á næstu leiktíð,“ sagði Crouch í samtali við Sportsmail en hann er orðinn 39 ára gamall. „Manchester City er auðvitað það lið sem er líklegast til þess að veita Liverpool samkeppni en ég sá að John Stones talaði um City hefði verið besta liðið í ár og það er mjög auðvelt að vera ósammála honum.

Vissulega hefur City spilað skemmtilegan sóknarbolta en Liverpool er með 23 stiga forskot á toppi deildarinnar og það segir manni og sýnir hversu mikla yfirburði liðið hefur haft á tímabilinu. Liverpool verður áfram liðið sem önnur lið þurfa að leggja að velli, ætli það sér að verða Englandsmeistari, því þeir eru líklegastir.

Önnur lið gætu hins vegar brúað bilið á Liverpool í sumar og ég tel að bæði Chelsea og Manchester United geti bæði barist í og við topp deildarinnar á næstu leiktíð. Chelsea hefur nú þegar styrkt sig og United mun að öllum líkindum gera það líka þannig að það verður spennandi að sjá hvernig næsta tímabil þróast,“ bætti Crouch við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert