Bundum ekki vonir okkar við bann City

Frank Lampard
Frank Lampard AFP

Enska knatt­spyrnu­fé­lagið Manchester City er ekki á leiðinni í bann frá Evrópukeppnum UEFA á næstu leiktíð eftir að Alþjóða íþróttadómstóllinn tók áfrýjun félagsins til greina. City var úr­sk­urðað í tveggja ára bann frá Evr­ópu­keppn­um fyr­ir brot á fjár­mála­regl­um UEFA í fe­brú­ar á þessu ári og stefndi allt í að fé­lagið yrði því ekki í Meist­ara­deild­inni á næstu leiktíð.

Hefði bann City staðið myndi fimmta sætið í úrvalsdeildinni duga til þátttöku í Meistaradeildinni, enda Manchester-liðið öruggt í öðru sæti deildarinnar. Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segir þó félagið aldrei hafa bundið vonir sínar við að fimmta sætið myndi duga.

„Ég batt vonir mínar aldrei við að auka lið kæmist inn í Meistaradeildinni, við hugsum um okkur sjálfa. Ef við vinnum nógu marga leiki þá komumst við inn,“ sagði Lampard á blaðamannafundi sínum í dag en lærisveinar hans mæta Norwich annað kvöld.

Chelsea er sem stendur í 3. sæti með 60 stig, stigi á undan Leicester og tveimur stigum á undan Manchester United sem á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert