Neitaði að tjá sig um Özil

Mesut Özil hefur ekki verið í leikmannahópi Arsenal í undanförnum …
Mesut Özil hefur ekki verið í leikmannahópi Arsenal í undanförnum leikjum. AFP

Mesut Özil, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, var ekki í leikmannahóp liðsins um helgina þegar liðið heimsótti Tottenham í nágrannaslag ensku úrvaldsdeildarinnar í London. Leiknum lauk með 2:1-sigri Tottenham en Özil hefur verið utan hóps hjá Arsenal allt frá því að tímabilið hófst á nýjan leik eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

„Staðan er óbreytt,“ sagði Arteta í samtali við fjölmiðlamenn eftir leikinn í gær þegar hann var spurður út í fjarveru Özil. „Það hefur ekkert breyst á undanförnum tveimur til þremur vikum og staðan er bara eins og hún er. Þetta er innanbúðarvandamál hjá félaginu og ég mun ekki ræða það eða reyna leysa það í samtali við fjölmiðla.“

Fjölmiðlar gengu þá á spænska stjórann og báðu hann um að útskýra þessi orð sín frekar. „Ég hef ekkert meira að segja um þetta að svo stöddu,“ bætti Arteta við. Özil er orðinn 31 árs gamall en hann er launahæsti leikmaður Arsenal með 350.000 pund á viku. Hann hefur aðeins byrjað 18 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og má búast við því að hann yfirgefi félagið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert