Tilbúnir að framlengja við Lovren

Dejan Lovren hefur verið orðaður við brottför frá Liverpool að …
Dejan Lovren hefur verið orðaður við brottför frá Liverpool að undanförnu. AFP

Dejan Lovren, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður samningslaus næsta sumar en hann hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu í sumar. Lovren hefur meðal annars verið orðaður við félög í ítölsku A-deildinni og þá eru Rússlandsmeistarar Zenit frá Pétursborg sagðir hafa áhuga á Lovren.

Lovren er orðinn 31 árs gamall en hann kom til Liverpool frá Southampton í júlí 2014. BBC greinir frá því að Liverpool sé tilbúið að selja leikmanninn í sumar en ef ekkert félag er tilbúið að borga uppsett verð fyrir Króatann þá muni forráðamenn Liverpool bjóða honum nýjan samning sem gildir til sumarsins 2022.

Lovren er metinn á 15 milljónir punda í dag en samkvæmt ensku fjölmiðlum er Liverpool sagt tilbúið að selja hann fyrir um 10 milljónir punda í sumar. Lovren hefur komið við sögu í tíu leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls hefur hann leikið 185 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert