Skiptar skoðanir hjá stjórunum

Jürgen Klopp og José Mourinho ræddu málefni Manchester City á …
Jürgen Klopp og José Mourinho ræddu málefni Manchester City á blaðamannafundi í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistari Liverpool, var mættur á blaðamannafund í dag þar sem hann ræddi leik liðsins gegn Arsenal á morgun. Á blaðamannafundinum var Klopp einnig spurður út í álit sitt á því úrskurði Alþjóða íþróttadómstólsins sem ákvað að aflétta Evrópubanni Manchester City í gær.

„Ég veit ekki alveg hvort ég sé rétti maðurinn til að tjá mig,“ sagði Klopp. „Persónulega þá er ég bara ánægður með þetta því þetta þýðir að City verður í Meistaradeildinni á næstu leiktíð sem þýðir auka tíu til tólf leikir á tímabilinu. Ef þeir hefðu fengið frí í Evrópu þá hefði ekkert annað lið átt möguleika í þá í deildinni á Englandi,“ bætti Klopp léttur við.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, var hins vegar ekki alveg jafn léttur. „Þessi niðurstaðan er hrein og bein þvæla. Ef City-menn eru saklausir af hverju er þá verið að sekta þá um 10 milljónir evra. Ég er ekki að segja að þeir séu sekir eða neitt slíkt, ég þekki það ekki, en þessi niðurstaða er brandari.

Ef þeir eru sekir, þá á bannið að standa og sektin að sjálfsögðu líka. Ef þeir eru saklausir þá á ekki að sekta þá um 10 milljónir punda. Það eru þeir sem tóku ákvörðunina sem eiga að skammast þín því ákvörðunin var hrikaleg,“ bætti Portúgalinn við en Tottenham á ekki möguleika á sæti í Meistaradeildinni eftir fréttir gærdagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert