Brasilíumaðurinn nálgast Arsenal

Willian er á förum frá Chelsea.
Willian er á förum frá Chelsea. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Willian nálgast brottför frá enska félaginu Chelsea eftir að hann hafnaði samningstilboði félagsins til tveggja ára. Hefur hann rætt við nágrannana í Arsenal. 

Willian vill þriggja ára samning en Chelsea er aðeins reiðubúið að bjóða honum tveggja ára framlengingu. Willian, sem er 31 árs, gæti leikið sinn síðasta leik með Chelsea gegn Bayern München í Meistaradeildinni næstkomandi laugardag. 

Kia Joorbachian, umboðsmaður sóknarmannsins, sagði við fjölmiðla í síðustu viku að fimm félög hefðu boðið William samning, tvö í ensku úrvalsdeildinni, tvö annars staðar í Evrópu og eitt í Bandaríkjunum. Þykir Arsenal líklegast til að hreppa leikmannin sem hefur leikið 70 landsleiki með Brasilíu. 

Willian kom til Chelsea frá Anzhi Makhackala frá Rússlandi árið 2013 og hefur leikið 234 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim 37 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert