Byrjum of snemma

Frank Lampard.
Frank Lampard. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segir allt of snemmt að hefja keppni aftur 12. september en þá á fyrsta umferð úrvalsdeildarinnar á næstu leiktíð að byrja.

Chelsea spilaði úrslitaleik enska bikarsins um helgina og næsta laugardag mætir liðið Bayern München í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Jafnvel þótt Lundúnaliðinu takist ekki að snúa við 3:0-tapi úr fyrri leiknum eru engu að síður aðeins þá 35 dagar í að deildin hefjist á ný.

„Leikmenn þurfa frí til að geta spilað á því stigi sem úrvalsdeildin er á,“ sagði Lampard við BBC. „Jafnvel þótt allt fari á versta veg og við komumst ekki áfram í Meistaradeildinni, finnst mér 12. september vera of snemmt.“

Öllum ensku liðunum hefur verið lofað að minnsta kosti 30 daga frí. Manchester City er einnig með í Meistaradeildinni sem verður kláruð í ágúst en úrslitaleikurinn verður spilaður þann 23. Þá eru Manchester United og Wolves í Evrópudeildinni en þar verður úrslitaleikurinn spilaður 21. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert