Fulham í úrvalsdeildina

Fögnuður leikmanna Fulham í leikslok á Wembley í kvöld.
Fögnuður leikmanna Fulham í leikslok á Wembley í kvöld. Ljósmynd/Fulham

Fulham mun leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir 2:1-sigur á Brentford í úrslitaleik umspilsins í B-deildinni á Wembley í kvöld. Grípa þurfti til framlengingar og þar skoraði Joe Bryan tvö mörk.

Fyrra markið skoraði hann á 105. mínútu og ótrúlegt var það. Hann tók þá aukaspyrnu af um 40 metra færi og virtist vera að gefa boltann fyrir en David Raya misreiknaði sig herfilega í markinu og missti boltann í netið.

Við það reyndu auðvitað Brentford-menn allt hvað þeir gátu og opnuðu vörn sína upp á gátt í leit að jöfnunarmarki. Það fór þó ekki betur en svo að Bryan bætti við marki tveimur mínútum fyrir leikslok. Henrik Dalsgaard skoraði sárabótamark fyrir Brentford í uppbótartíma en það dugði ekki til.

Brentford hefur nú níu sinnum leikið til úrslita í umspili og aldrei tekist að vinna. Fulham er aftur á móti snúið aftur í úrvalsdeildina þar sem liðið lék síðast á þarsíðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert