Verðmætasti leikur heims

Brentford og Fulham bítast um síðasta lausa sætið í ensku …
Brentford og Fulham bítast um síðasta lausa sætið í ensku úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Brentford FC

Verðmætasti knattspyrnuleikur ársins á Englandi verður spilaður á Wembley-leikvanginum í London klukkan 18:45 í kvöld er Lundúnaliðin Brentford og Fulham leiða saman hesta sína í úrslitaleik í umspili B-deildarinnar. Verðlaunin fyrir sigurliðið er lykill að draumalandinu, ensku úrvalsdeildinni. Er úrslitaleikur umspilsins oft kallaður verðmætasti staki knattspyrnuleikur í heimi.

Sjónvarpstekjurnar í ensku úrvalsdeildinni eru gríðarlegar bornar saman við B-deildina. Fari Brentford upp fær félagið strax um 160 milljónir punda. Takist liðinu að halda sér í deildinni í meira en eitt tímabil verða þær 265 milljónir punda. Fulham fær um 135 milljónir punda fari liðið upp, en félagið fékk yfir 100 milljónir punda frá deildinni er það féll á síðasta tímabili. Væru slíkar tekjur venjulega afar mikilvægar fyrir félög sem hafa leikið í ensku B-deildinni og aldrei eins mikilvægar og nú vegna áhrifa kórónuveirunnar á fjárhag knattspyrnufélaga á Englandi.

Liðin áttu bæði möguleika á að tryggja sér annað sæti í lokaumferðinni en Brentford tapaði óvænt fyrir Barnsley, 1:2, á meðan Fulham gerði jafntefli við Wigan, 1:1. West Bromwich Albion dugði því 2:2-jafntefli við QPR til að tryggja sér annað sæti og farseðilinn upp í úrvalsdeildina með Leeds sem vann að lokum öruggan sigur í deildinni. Brentford og Fulham fóru því í umspilið þar sem Brentford sló Swansea úr leik í undanúrslitum og Fulham hafði betur gegn Cardiff.

Saga félaganna í efstu deild er ólík. Brentford lék síðast í efstu deild árið 1947 og hefur aðeins verið á meðal þeirra bestu í samanlagt fimm tímabil. Hefur Brentford verið í B-deildinni frá árinu 2014 en aðeins er rúmur áratugur síðan félagið var í D-deildinni. Hefur liðið leikið á Griffin Park frá árinu 1904, en liðið flytur á hinn glænýja Brentford Community-völl á næstu leiktíð.

Sjáðu greinina um úrslitaleik umspilsins á Englandi í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert