Vilja kaupa fimm leikmenn í sumar

Kalidou Koulibaly.
Kalidou Koulibaly. AFP

Enska knatt­spyrnu­fé­lagið Manchester City ætlar að blása til stórsóknar fyrir næstu leiktíð í úrvalsdeildinni, sem hefst 12. september, en enskir fjölmiðlar segja félagið ætla að kaupa þó nokkra leikmenn í félagaskiptaglugganum. 

City staðfesti kaup á kantmanninum Ferran Torres frá Valencia í gær og þá er varnarmaðurinn Nathan Aké í læknisskoðun en hann kemur frá Bournemouth fyrir um 41 milljón punda.

Félagið vill einnig kaupa Kalidou Koulibaly, varnarmann Napoli, og þá þarf að finna arftaka fyrir sóknarkempurnar David Silva, sem er að yfirgefa félagið, og Sergio Aguero sem er kominn til ára sinna.

Lautaro Martínez er ofarlega á óskalistanum en framherjinn spilar með Inter Mílanó. Þá kemur Joao Felix hjá Atlético Madríd einnig til greina. Sky Sports segir frá þessu en forráðamenn City hafa ekki hafið viðræður við önnur félög. Til að byrja með ætla þeir að koma kaupunum á Aké í gegn.

Lautaro Martinez.
Lautaro Martinez. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert