Veit að pabbi er stoltur af mér

Rúnar Alex Rúnarsson skrifaði undir fjögurra ára samning við Arsenal …
Rúnar Alex Rúnarsson skrifaði undir fjögurra ára samning við Arsenal á dögunum. Ljósmynd/Arsenal.com

Rúnar Alex Rúnarsson gekk til liðs við enska knattspyrnufélagið Arsenal á dögunum en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við enska stórliðið.

Rúnar var á meðal varamannaliðsins þegar Arsenal vann 2:0-útisigur gegn Leicester í 3. umferð enska deildabikarsins í vikunni en enskir fjölmiðlar hafa sýnt skiptunum mikinn áhuga.

Rúnar Alex er sonur Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR og leikjahæsta landsliðsmanns Íslands frá upphafi, en Rúnar ræddi afrek föður síns innan vallar í samtali við heimasíðu Arsenal á dögunum.

„Ég er virkilega stoltur af honum og því sem hann afrekaði á sínum knattspyrnufelli,“ sagði Rúnar Alex í samtali við heimasíðu Arsenal.

„Samband okkar hefur alla tíð verið mjög gott og við tengjumst sterkari böndum en margir feðgar gera. Ég veit að hann er mjög stoltur af mér.

Ég hugsa að hann hefði ekki haft neitt á móti því að spila með Arsenal á sínum ferli en hann þarf að sætta sig við það að upplifa þetta í gengum mig núna. Ég þurfti að segja honum það tvisvar að ég væri á leið til félagsins því hann neitaði að trúa mér.

Fjölskylda mín er stolt af þessum árangri mínum og ég er sjálfur stoltur af mér og ég get ekki beðið eftir að spila minn fyrsta leik fyrir félagið,“ bætti Rúnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert