Campbell: Vandræðagemsarnir fá engan afslátt

Liverpool tekur á móti Arsenal í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í Liverpool í kvöld.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans á Íslandi, ræddi við Sol Campbell, fyrrverandi varnarmann Arsenal um leikinn mikilvæga.

Campbell lék með Arsenal á árunum 2001 til ársins 2006 og varð tvívegis Englandsmeistari með liðinu en hann er hrifinn af því sem Mikel Arteta hefur verið að gera síðan Spánverjinn tók við stjórnartaumunum hjá félaginu.

„Það sem mér finnst einkenna liðið í dag er sú staðreynd að það virðast allir hjá félaginu vera á sömu blaðsíðu,“ sagði Sol Campbell í samtali við Símann Sport.

„Þeir sem eru ekki tilbúnir að gera það sem stjórinn biður um eru látnir fara og fá ekki að spila. 

Auðvitað fá allir sitt tækifæri og það byrja allir á byrjunarreit en þeir sem hafa verið til vandræða undanfarin ár þurfa annaðhvort að stíga upp eða þeir eru látnir fara. Þeir fá engan afslátt lengur.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað er að gerast innan félagsins en ég hef góða tilfinningu sem Mikel Arteta er að gera og það virðast allir vera að róa í sömu átt,“ sagði Campbell meðal annars.

Leikur Liverpool og Arsenal verður sýndur beint á Síminn Sport í kvöld klukkan 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert