Klopp: Engin flugeldasýning

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum sáttur eftir 1:0-sigur liðsins gegn Ajax í D-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Johan Cruijff Arena í Amsterdam í Hollandi í kvöld.

Sjálfsmark Nicolás Tagliafico reyndist sigurmark Liverpool í leiknum en Englandsmeistararnir hafa oft spilað betur en í kvöld.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vinna leikinn,“ sagði Klopp í samtali við BT Sport.

„Við þurftum á sigri að halda og það tókst. Heilt yfir þá held ég að bæði lið hefðu getað spilað mun betri fótbolta. Þetta var frekar villtur leikur og völlurinn var erfiður yfirferðar. Hann var allt öðruvísi en á æfingunni í gær sem dæmi.

Við nýttum ekki þau færi sem við fengum sem hefði getað reynst dýrt. Ajax átti frábært skot í stöng en svona hlutir geta gerst þegar að þú leiðir með einu marki gegn engu. 

Heilt yfir þá er ég bara nokkuð sáttur með frammistöðu míns liðs. Þetta var engin flugeldasýning en við ætluðum okkur þrjú stig og fengum þau,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert