Það má ekki taka menn haustaki

Harry Maguire tekur Cesar Azpilicueta föstum tökum inn í vítateig …
Harry Maguire tekur Cesar Azpilicueta föstum tökum inn í vítateig í leiknum í gær. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var allt annað en sáttur með að hans menn fengu ekki vítaspyrnu í markalausa jafnteflinu gegn Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Liðin skildu jöfn í heldur bragðdaufum leik í Manchester rigningunni en um miðjan fyrri hálfleik vildu gestirnir fá vítaspyrnu þegar fyrirliðarnir tókust á inn í vítateig. Harry Maguire reif niður Cesar Azpilicueta með því að taka hann hálstaki en atvikið má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni.

Atvikið var skoðað af myndbandsdómara leiksins sem ákvað að gera ekkert frekar í málinu. „Þetta var klár vítaspyrna, þú mátt halda í menn en ekki taka þá haustaki,“ sagði pirraður Lampard við BBC eftir leikinn.

„Það getur verið erfitt fyrir dómarann að sjá þetta en þeir voru ansi snöggir að vísa þessu frá í VAR. Ef dómarinn hefði farið og skoðað þetta sjálfur, þá hefði hann gefið víti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert