Frá Bayern München til Liverpool?

David Alaba hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við …
David Alaba hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Bayern München. AFP

Liverpool hefur áhuga á austurríska knattspyrnumanninum David Alaba en það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu.

Alaba, sem er 28 ára gamall, er samningsbundinn Bayern til sumarsins 2021 en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Bæjara. Hann getur því farið frítt frá félaginu næsta sumar.

Liverpool er í vandræðum varnarlega en Virgil van Dijk, Fabinho og Joel Matip eru allir að glíma við meiðsli.

Alaba er uppalinn hjá Bayern München og hefur leikið með félaginu allan sinn feril en hann á að baki 74 landsleiki fyrir Austurríki þar sem hann hefur skorað 14 mörk.

Hann getur bæði spilað sem miðvörður og vinstri bakvörður en hann hefur níu sinnum orðið Þýskalandsmeistari og sex sinnum bikarmeistari. Þá hefur hann tvívegis orðið Evrópumeistari.

Bild greinir frá því að Liverpool gæti lagt fram tilboð í leikmanninn í janúar en hann er verðmetinn á 50 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert