Þetta er harðari heimur

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR og faðir Rúnars Alex Rúnarssonar markvarðar hjá enska knattspyrnufélaginu Arsenal, kveðst ánægður með frammistöðu sonarins í fyrsta leik hans með enska félaginu sem var gegn Dundalk í Evrópudeildinni í gærkvöld.

„Það var búið að liggja aðeins í loftinu að hann fengi leik fljótlega. Þetta var fínn tími til að til að fá eldskírnina og hann leysti það mjög vel. Hann stóð sig mjög vel, þó það væri ekki mikið að gera þá gerði hann vel það sem hann þurfti að gera," sagði Rúnar í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í þættinum Mín Skoðun á SportFM.

Rúnar sagði að það hefði verið gott fyrir Rúnar Alex að byrja á leik eins og þessum, sem var í léttari kantinum.

„Það voru ekki mörg atvik sem hann þurfti að leysa en þetta var góð byrjun. Hann fékk á sig langskot  eftir 2-3 mínútur, skot sem hann átti að verja, og hann gerði það. Í kjölfarið komu tvær hornspyrnur þar sem hann greip boltann. Þá var skrekkurinn farinn og það gaf sjálfstraust inn í leikinn. Þar með verður auðveldara að búa sig undir næsta leik, hvenær sem hann verður," sagði Rúnar.

Hann sagði ennfremur að sonurinn væri kominn í algjörlega nýtt umhverfi hjá Arsenal. „Það er spilaður allt öðruvísi fótbolti á Englandi en í Frakklandi og Danmörku. Það er meiri harka í vítateignum og meira leyft í dómgæslunni. Þetta er áskorun, nýr vinnustaður, meiri samkeppni, meiri umfjöllun. Allt sem kemur að lífinu breytist þegar þú ert kominn í einn af stærstu klúbbunum í heiminum. Þú ert á milli tannanna á öllum ef þú gerir ein mistök, hvort sem þú ert sóknarmaður, varnarmaður eða markmaður. Þetta er harðari heimur," sagði Rúnar Kristinsson en viðtalið í heild má heyra í þættinum Mín Skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert