Fyrsti sigur Jóhanns og félaga

Chris Wood skorar sigurmarkið.
Chris Wood skorar sigurmarkið. AFP

Burnley vann sinn fyrsta sigur á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið lagði Crystal Palace af velli á heimavelli í dag, 1:0. Chris Wood skoraði sigurmarkið strax á 8. mínútu.

Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley og átti þátt í markinu, en það kom eftir að varnarmenn Crystal Palace náðu ekki að koma boltanum í burtu eftir fyrirgjöf Jóhanns. Hann komst næst því að bæta við marki hjá Burnley en hann skaut í slá í seinni hálfleik. 

Íslenski kantmaðurinn fór af velli á 67. mínútu í sínum hundraðasta úrvalsdeildarleik. Jóhann hefur mikið glímt við meiðsli síðustu vikur og mánuði og var leikurinn aðeins sá þriðji á leiktíðinni sem Jóhann Berg byrjar.

Burnley fór með sigrinum upp í fimm stig og upp úr fallsæti en liðið er nú í 17. sæti, einu stigi á undan Fulham sem er dottið niður í fallsæti. Crystal Palace er í 10. sæti með 13 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert