Eiður um Lampard: Rosalega þrjóskur

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, er að gera góða hluti með liðið eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum á Stamford Bridge sumarið 2019.

Lampard er á öðru tímabili sínu með liðið en Chelsea er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir fyrstu níu umferðir tímabilsins.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, ræddi enska stjórann við sérfræðinga sína Bjarna Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen á dögunum en Eiður og Lampard voru liðsfélagar hjá Chelsea í sex ár og þekkjast afar vel.

„Hann þekkir klúbbinn inn og út og er einn farsælasti leikmaður í sögu félagsins,“ sagði Eiður Smári.

„Pressan að vinna titil hjá félaginu á hans fyrsta ári var ekki mikil vegna þess að hann gat ekki keypt leikmenn þar sem klúbburinn var í félagaskiptabanni.

Það var ár þar sem hann gat komið sér inn í þetta en hann þurfti engu að síður að ná í meistaradeildarsæti. Pressan er hins vegar allt önnur í ár og ég held að það sé pressa að skila titli í hús í ár.

Frank Lampard er ótrúleg týpa, hann er rosalega þrjóskur, og á það til að lifa í sínum eigin heimi,“ bætti Eiður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert