Snýr Daninn aftur til Englands?

Christian Eriksen fær lítið að spila á Ítalíu.
Christian Eriksen fær lítið að spila á Ítalíu. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina í janúar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður en það er ESPN sem greinir frá þessu.

Eriksen er samningsbundinn Inter Mílanó á Ítalíu en hann gekk til liðs við ítalska félagið í janúar á þessu ári fyrir 17 milljónir punda.

Hann hefur alls ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans á Ítalíu en Eriksen er samningsbundinn Inter til sumarsins 2024.

Miðjumaðurinn hefur aðeins byrjað þrjá leiki í ítölsku A-deildinni á tímabilinu en ESPN greinir frá því að Inter hafði boðið Arsenal að kaupa leikmanninn á 16 milljónir punda.

Eriksen, sem er orðinn 28 ára gamall, þekkir vel til á Englandi eftir að hafa spilað með Tottenham frá 2013 til ársins 2020.

Hann á að baki 103 landsleiki fyrir Danmörku en Eriksen lék 305 leiki fyrir Tottenham í öllum keppnum þar sem hann skoraði 69 mörk og lagði upp önnur 89. 

Arsenal hefur gengið illa að skora og skapa sér afgerandi marktækifæri á tímabilinu og gæti Eriksen verið maðurinn sem Mikel Artea, stjóri liðsins, þarf á miðsvæðið hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert