Rúnar Alex fær falleinkunn hjá Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. AFP

Rún­ar Alex Rún­ars­son landsliðsmarkvörður fær falleinkunn hjá enska götublaðinu Daily Mail sem fór yfir félagsskipti úrvalsdeildarliðanna fyrir núverandi tímabil.

Rúnar var keyptur til Arsenal frá franska liðinu Dijon í september og hefur enn ekki spilað fyrir liðið í úrvalsdeildinni en hann hefur spilað fjóra leiki í Evrópudeildinni og stóð á milli stanganna gegn Manchester City í deildabikarnum á miðvikudaginn.

Þar fékk hann á sig slysalegt mark er hann missti boltann framhjá sér og í netið eftir skot Riyads Mahrez úr aukaspyrnu en City vann leikinn 4:1. Markið minnti á það sem Gylfi Þór Sig­urðsson skoraði fyr­ir Ísland gegn Ung­verjalandi í úr­slita­leikn­um um sæti á EM þegar Péter Gulácsi, einn besti markvörður þýska fót­bolt­ans, missti bolt­ann fram­hjá sér á svipaðan hátt.

Rúnar er einn þeirra leikmanna sem Daily Mail gefur falleinkunnina fjóra af tíu mögulegum. Segir þar að Íslendingurinn hafi verið „ein af vonbrigðum Evrópu í vetur enda hefur hann verið óöruggur í leikjum sínum með Arsenal. Það á enn eftir að reyna á hann í úrvalsdeildinni og þrátt fyrir að hafa sjálfur sagst vera tilbúinn að taka byrjunarliðssætið af Leno virðist hann eiga langt í land áður en það gerist,“ segir enn fremur í gagnrýninni en aðalmarkvörður Arsenal er þýski landsliðsmaðurinn Bernd Leno.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert